Borðtennisfélag stofnað í Reykjanesbæ
Stofnfundur í Borðtennisfélagi Reykjanesbæjar (BR) var haldinn 31. mars en vegna Covid-19 mættu bara sjö stofnfélagar á fundinn ásamt tveimur gestum frá Borðtennissambandi Íslands. Formaður sambandsins og varaformaður mættu á fundinn og lýstu ánægju sinni með að nýtt félag væri að líta dagsins ljós. Að stofnun félagsins standa aðilar sem hafa æft borðtennis í kaþólsku kirkjunni á Ásbrú og einnig hafa sumir stofnfélagar æft og keppt fyrir borðtennisfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Meðlimir hafa tekið þátt í nokkrum mótum undanfarna mánuði og unnið þar til verðlauna. Eitt af markmiðum félagsins er að halda uppi öflugu barna- og unglingastarfi ásamt æfingum fullorðinna. Stofnendur hafa átt í viðræðum við fulltrúa Reykjanesbæjar um aðstöðu fyrir félagið og er verið að skoða hvaða kostir gætu staðið til boða. Vonandi næst niðurstaða í það sem fyrst þannig að starfið geti hafist.
Fyrstu stjórn félagsins skipa:
Piotr Herman, formaður
Piotr Brys, varaformaður
Jóhann Rúnar Kristjánsson, ritari
Jón Gunnarsson, gjaldkeri
Michal May-Majewski, meðstjórnandi
Varastjórnarmenn eru Damien Kossakowski og Petr Vyplel.
Þeir sem vilja gerast stofnfélagar í Borðtennisfélagi Reykjanesbæjar geta skráð sig hjá Piotr Herman, formanni, [email protected] eða Jóni Gunnarssyni, gjaldkera, [email protected] út aprílmánuð.
Stjórn vill hvetja þá fjölmörgu aðila sem hafa æft og spilað borðtennis að hafa samband og einnig verður auglýst hvernig barna- og unglingastarfi verður háttað þegar niðurstaða er komin varðandi æfingaaðstöðu, segir í frétt frá nýju félagi.